Síðasta Kjartansblótið framundan

Þrettánda Selfossþorrablótið verður haldið næstkomandi laugardag. Kjartan Björnsson, rakari, hefur staðið fyrir blótunum en nú er komið að leiðarlokum og framundan er síðasta blótið á vegum Kjartans.

„Ég fór af stað með Selfossblótin því ég taldi eðlilegt að jafn stórt bæjarfélag og Selfoss hefði almenningsblót í boði fyrir sína íbúa eins og önnur minni og stærri samfélög, en almenningsblótið hafði legið niðri um nokkurt skeið. Það hefur vissulega gengið á ýmsu og það er mikið mál fyrir einstakling að bera fjárhagslega og framkvæmdalega ábyrgð á jafn stóru viðskiptamódeli og eitt þorrablót er,“ segir Kjartan í tilkynningu sem hann sendi frá sér í kvöld.

„Það tekur á þó vissulega hafi ég öll árin notið einstakrar aðstoðar fjölskyldu og vina við framkvæmdina svo ekki sé nú talað um íbúana og mörg fyrirtæki sem hafa gert þetta mögulegt með aðstoð og mætingu. Eftir bankahrunið hefur blótið ekki náð sér nægilega á strik með mætingu þrátt fyrir sýnilegan vilja til þess að koma til móts við fólk með mjög hagstæðu verði og sanngjörnum kjörum,“ segir Kjartan ennfremur.

„Ég hef ákveðið í samráði við fjölskyldu að þorrablótið á laugardaginn verði síðasta þorrablótið sem ég stend fyrir og vil ég þakka þeim fjölmörgu sem hafa aðstoðað mig á einn eða annan hátt í gegnum árin. Ég hef haft af þessu mikla gleði og ánægju í gegnum árin en nú verða vatnaskil og því liggur það fyrir að 13. Selfossblótið er það síðasta á mínum vegum. Ég á mér þá von og ósk að Selfyssingar, búandi og burtfluttir ásamt gestum, fjölmenni um helgina og að við eigum mikla og góða gleðistund saman á þessum tímamótum,“ segir Kjartan og bætir við að ennþá eru til miðar á blótið.

Fyrri greinSkráning hafin í trúbadorakeppni
Næsta greinUmferðartafir við Núpsvötn