Síðustu skátarnir útskrifaðir

Síðustu skátarnir sem höfðu sýkst af nóró-veiru voru útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði rétt fyrir klukkan 10 í morgun.

Þar með er formlegum aðgerðum lokið en fjöldahjálparstöðin var opnuð aðfararnótt fimmtudags eftir að fjöldi skáta á Úlfljótsvatni veiktist.

Alls var 181 skáti fluttur í Hveragerði en af þeim veiktust um 70 á einhverjum tímapunkti.

„Ég held ég hafi aldrei séð eins ánægt fólk og þegar síðustu skátarnir komu út í morgun,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Þau drógu djúpt andann og hlógu, enda sum verið lokuð inni með veiku fólki frá því að fjöldahjálparstöðin opnaði.“

„Það sem stendur uppúr er hvað allir sem komu að þessari aðgerð hafa verið einsettir í því að gera líf okkar auðveldara,“ segir Elín. „Það hefur verið mikil huggun í því að finna fyrir því öryggisneti sem sett var upp fyrir okkur, og hversu vel hefur verið hugsað um okkur. Ég vil því endilega nota tækifærið og þakka öllum sem hafa komið að þessari aðgerð fyrir. Rauði krossinn, heilbrigðisstarfsfólk, björgunarsveitir, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar voru fljótir til að bregðast við kalli um aðstoð en líka bæjaryfirvöld í Hveragerði og fjöldi einstaklinga, meðal annars úr skátahreyfingunni, sem hefur tekið að sér stærri og minni verkefni.“

Af þeim fimm hópum sem voru á Úlfljótsvatni þegar sýkingin kom upp hafa tveir þegar flogið heim. „Þriðji hópurinn fer svo í fyrramálið og þeir tveir síðustu aðfararnótt miðvikudags,“ segir Elín.

Enn á eftir að fá niðurstöður úr sýnatöku Heilbrigðiseftirlitsins en Elín vonar að þær niðurstöður liggi fyrir á mánudag. Þangað til sé aðeins notað við aðflutt neysluvatn í flöskum.

Fyrri greinFlestir á góðum batavegi
Næsta greinTýndur maður húkkaði far með björgunarsveitarbíl