Síðasti kaffitíminn

Starfsmenn Byggingarfélagsins Árborgar drukku kaffi í síðasta sinn á kaffistofunni í morgun en Sigfús Kristinsson, byggingameistari á Selfossi, hættir störfum nú um mánaðarmótin.

Fjórir starfsmenn hafa unnið hjá fyrirtækinu síðustu mánuði. Fyrr á árum var Sigfús, sem verður áttræður á næsta ári, einn stórtækasti byggingaverktakinn á Suðurlandi.

Sigfús hefur rekið byggingafyrirtæki í rúm 50 ár. Trésmiðja Sigfúsar Kristinssonar sá meðal annars um smíði sjúkrahússins á Selfossi, nýja Kaupfélagshússins, Pósthússins, Bónushússins og Fjölbrautaskóla Suðurlands auk fjölda smærri íbúðar- og þjónustubygginga á Selfossi. Síðustu ár hefur starfsemi fyrirtækisins að mestu leiti snúið að hurða og innréttingasmíði.

Starfsmenn Árborgar undirbjuggu veglegt kaffihlaðborð í morgun og ráku margir gamlir starfsmenn inn nefið og rifjuðu upp gamla tíma.

sigfus_kristinsson300911gk_002_827833652.jpg
Nokkrir af starfsmönnum Sigfúsar í gegnum tíðina (f.v.) Sigurdór Karlsson, Pétur Kúld, Eiríkur Sigurjónsson, Brynjólfur Gestsson, Sverrir Einarsson, Viktor Óskarsson og Einar Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl