Síðasta sprengingin í aðrennslisgöngum Búðarhálsvirkjunar

Síðasta haftið í aðrennslisgöngum Búðarhálsvirkjunar var sprengt í gær og eru göngin nú að fullu opin. Um stóran áfanga í verkinu er að ræða en fjögurra kílómetra löng aðrennslisgöngin munu flytja vatn frá Sporðöldulóni, undir Búðarháls og að vélum virkjunarinnar.

Gröftur gangnanna hófst í maí 2011 og voru þau grafin þannig að fyrst var efri hluti gangasniðsins grafinn í gegnum fjallið og síðan neðri hluti þess. Slegið var í gegn í efri hluta þann 27. nóvember 2012.

Jarðgangnavinnan hefur verið krefjandi sökum jarðfræðilegra aðstæðna en bergið hefur reynst bæði hart og sprunguskorið á köflum. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður hefur vinnan sóst vel en erfiðar aðstæður hafa á tíðum orsakað nokkrar tafir.

Nú þegar gangnagreftri er lokið tekur við um mánaðarvinna við frágang og hreinsun ganga ásamt því að lokið verður við uppsteypu gangnainntaks og gröft aðrennslisskurðar að göngunum. Áætlað er að göngin verði vatnsfyllt í nóvember.

Fyrri greinÖlfusingar leggjast gegn eignarnámi
Næsta greinRakel Sif sýnir í Listagjánni