Sextíu og sjö vilja komast í sumarafleysingar

Aldrei áður hafa borist jafn margar umsóknir um sumarstörf hjá lögreglunni á Suðurlandi en umdæmið spannar nú svæðið frá Ölfusi austur fyrir Höfn í Hornafirði. Alls bárust 67 umsóknir um almenna stöðu lögreglumanns og tvær um afleysingar í rannsóknardeild.

„Af umsækjendum eru 47 karlar og 21 kona. Fimm umsækjendur hafa lokið námi í Lögregluskóla ríkisins,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, í samtali við Sunnlenska, en ellefu störf voru auglýst nýlega laus til umsóknar.

Heimilt er að ráða til afleysinga einstaklinga sem uppfylla skilyrði til námsvistar í lögregluskóla sæki skólagengnir lögreglumenn ekki um. Fimmtán umsækjendur hafa starfað við afleysingar í lögreglu áður án þess að hafa lokið lögregluskóla.

„Ljóst er að áhugi á lögreglustarfinu er mikill, margir umsækjenda eru háskólanemar í lögfræði- eða félagsfræðigreinum sem greina frá því í umsóknum sínum að lögreglustarfið telji þeir góða reynslu tengda námi sínu. Nú verður farið í að vinna úr þessum umsóknum en ljóst er að sú vinna tekur einhvern tíma,“ segir Oddur.

Fyrri greinVill fimm stór sveitarfélög
Næsta greinStórt tap hjá Stokkseyringum