Sextán íbúðir sjóðsins tómar í miðbænum

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, hefur átt óformlegar viðræður við fulltrúa Íbúðalánasjóðs vegna tómra íbúða í eigu sjóðsins í Hveragerði.

Að sögn Aldísar eru þetta um sextán íbúðir sem standa tómar og þar sem flestar þeirra eru í miðbæ Hveragerðis þá sé ástand þeirra meira áberandi en ella. Íbúðalánasjóður hefur lofað að bæta úr og er viðgerð þegar hafin á tveimur íbúðum en sumar þessara íbúða þurfa talsverða standsetningu.

Að sögn Aldísar væri heppilegt ef íbúðirnar væru annað hvort seldar eða leigðar en skortur er á húsnæði til leigu og kaups í Hveragerði.

Aldís sagði að annars staðar í bænum mætti finna húsnæði sem eins væri ástatt um og þá í eigu banka eða fyrirtækja. Brýnt væri að allt þetta húsnæði væri gert íbúðarhæft sem fyrst.