Sex sveitarstjórastöður lausar

Sex sveitarfélög á Suðurlandi hafa auglýst eða eru að undirbúa að auglýsa eftir sveitarstjóra.

Sveitarfélögin eru Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing ytra, Hrunamannahreppur, Ölfus og Árborg. Nýr meirihluti sjálfstæðismanna í Árborg samþykkti á fundi sínum í gær að leggja starfsheiti bæjarstjóra niður. Þess í stað verður auglýst eftir „framkvæmdastjóra sveitarfélagsins“.

Í Rangárþingi eystra hefur Ísólfur Gylfi Pálmason tekið til starfa. Eydís Indriðadóttir verður áfram sveitarstjóri Ásahrepps og Gunnar Örn Marteinsson í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í Flóahreppi hefur Margrét Sigurðardóttir verið endurráðin.

Valtýr Valtýsson verður áfram sveitarstjóri í Bláskógabyggð undir nýjum meirihluta. Aldís Hafsteinsdóttir er áfram bæjarstjóri í Hveragerði og nýr meirihluti Grímsnes- og Grafningshrepps hyggst ráða Ingibjörgu Harðardóttur til starfans.