Sex störf í viðbót í Árborg

Sveitarfélagið Árborg hefur fengið samþykkt Vinnumálastofnunar fyrir sex störfum til viðbótar við þau ellefu sem sunnlenska.is greindi frá á fimmtudaginn.

Um er að ræða fimm störf innan Fjölskyldumiðstöðvar, tengd lista- og nýsköpunarsmiðju, og eitt starf hjá sérfræðingi umhverfismála tengt skráningu upplýsinga um náttúruvá í sveitarfélaginu, sérstaklega flóð í Ölfusá og sjávarflóð.

Verkefnið í Fjölskyldumiðstöðinni snýst um að undirbúa, skipuleggja og koma af stað Lista- og nýsköpunarmiðstöð í viðbótarhúsnæði sem sveitarfélagið hefur ákveðið að taka í notkun til að mæta aukinni þörf atvinnulausra námsmanna og annarra sem hugsanlega verða atvinnulausir og eiga ekki rétt á bótum.

Athygli er vakin á því að umsóknarfrestur er mjög stuttur og rennur út á mánudag. Upplýsingar um störfin er að finna heimasíðu Vinnumálastofnunar.