Sex milljónir til stígagerðar

„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða fyrir Skógrækt ríkisins því nú verður hægt að halda áfram stígaviðhaldi af fullum krafti á Þórsmerkursvæðinu.

Þetta er mikilvægt bæði fyrir öryggi ferðamanna sem og til að hlífa jarðvegi og gróðri við traðki,“ segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi þegar leitað var viðbragða hans við sex milljóna króna styrk frá ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála til stígagerðar og viðhalds gönguleiða í Þórsmörk og á Goðalandi í sumar.

Um er að ræða 90 kílómetra af gönguleiðum sem liggja um þessi svæði. Peningarnir verða nýttir til að greiða fyrir uppihald og verkstjórn sjálfboðaliðahópa, sem og efni sem kaupa þarf til stígaviðhalds.

Unnið verður að viðhaldi á fjölförnustu leiðum s.s. upphafi Laugavegarins á Þórsmörk sem og leiðinni yfir Fimmvörðuháls að norðanverðu.

„Skógræktin vill koma á framfæri þakklæti til auðlinda- og umhverfisráðherra fyrir skjót viðbrögð við óskum um aukið fjármagn til stígaviðhalds“, bætti Hreinn við.

Fyrri greinLoksins aftur hægt að selja pallbíla frá Bandaríkjunum
Næsta greinÞorgrímur heimsækir 10. bekkinga í Árborg