Sex manns sluppu með skrekkinn

Ökumaður jeppa missti stjórn á bíl sínum og velti út fyrir Biskupstungnabraut, fyrir ofan Þrastalund, í glerhálku á níunda tímanum í kvöld.

Sex erlendir ferðamenn voru í bílnum, sem er bílaleigubíll, og slapp fólkið allt án meiðsla. Bifreiðin hafnaði á hvolfi utan vegar, nokkuð skemmd.

Launhált er á þessum vegarkafla, um 3°C hiti og úrkoma sem frýs niðri við jörðu.

Síðdegis í dag veltu ísraelskir ferðamenn bifreið sinni við Efsta-Dal í Laugardal en meiðsli þeirra voru minniháttar.