Sex mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur

Héraðsdómur Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi á þriðjudag karlmann á fimmtugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur.

Brot mannsins áttu sér stað á Hvolsvelli í október og nóvember árið 2019 en í þriðja skiptið hafði hann ekið bíl útaf Suðurlandsvegi í Flóahreppi í mars 2020.

Maðurinn játaði sök í einum ákæruliðanna en neitaði sök í hinum tveimur og sagði að aðrir hafi verið undir stýri í þeim tilvikum. Skýringar mannsins voru hins vegar ótrúverðugar og í annað skiptið sást hann aka framhjá öryggismyndavél rétt áður en lögreglan hafði afskipti af honum. Maðurinn var ofurölvi í báðum tilvikum.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi fjórum sinnum áður sætt refsingu fyrir ölvunarakstur og önnur umferðarlagabrot. 

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi og vegna sakaferils hans þótti dómara ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Maðurinn var einnig sviptur ökurétti ævilangt og bifreið hans var gerð upptæk. Auk þess þarf hann að greiða allan sakarkostnað, tæpar 700 þúsund krónur.

Fyrri greinHeilbrigðisstofnun Suðurlands falinn rekstur Hraunbúða í Vestmannaeyjum
Næsta greinStokkseyringar byrja af krafti