Sex mánaða fangelsi fyrir að blekkja lögreglu

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann á fertugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir að blekkja lögreglu. Hann framvísaði ökuskírteini þegar lögregla stöðvaði hann á Þorlákshafnarvegi í mars sl. en var í raun próflaus.

Manninum bar að afhenda lögreglu skírteinið þegar honum á sínum tíma var birt sviptingin og hún tók gildi. Það gerði hann ekki og bar því við að hafa týnt ökuskírteininu.

Maðurinn var því bæði ákærður fyrir að framvísa skírteininu til þess að blekkja lögreglu og einnig fyrir að aka sviptur ökuréttindum.

Maðurinn hefur fimm sinnum áður verið sviptur ökuréttindum til lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt ökuferilskrá ákærða, sem lögð var fram í málinu, eru skráð 185 umferðarlagabrot af ýmsum toga á ákærða sl. fimmtán ár. Honum hafði m.a. sex sinnum verið gerð refsing fyrir að aka sviptur ökurétti samtals fyrir þrettán slík brot.

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi, óskilorðsbundið. Að auki var hann sviptur ökuréttindum í eitt ár og dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, rúmar 90 þúsund krónur.

Fyrri greinSveitaglíman glímd á Borg
Næsta greinSelfossliðið tryggði sér sæti á EM