Sex bílar skemmdust í árekstri

Sex bílar skemmdust í árekstri á Suðurlandsvegi, austast í Svínahrauni síðdegis í gær og þrír bílar óku útaf veginum til þess að forðast árekstur. Ekki urðu slys á fólki.

Miklar umferðartafir urðu vegna þessa og myndaðist löng bílaröð á austurleið þar sem vegurinn er einbreiður með víravegriði milli akreina.

Snarvitlaust veður var frá Kambabrún að Bláfjallavegi síðdegis í gær og aðstæður til aksturs mjög slæmar þar sem fljúgandi hálka var á veginum. Veðrið hafði gengið niður um klukkan hálfellefu í gærkvöldi en flughált var þá á Sandskeiði og í Svínahrauni.

Fleiri bílar lentu útaf eða í árekstrum á veginum síðdegis í gær en mikil umferð var á Suðurlandsvegi.