Set annast snjallmælavæðingu Selfossveitna

Set ehf. á Selfossi og Selfossveitur hafa gert með sér samning um innkaup á snjallmælum hitaveitu. Fyrir liggur að snjallvæða alla hitaveitumæla hjá Selfossveitum en það hefur umtalsvert hagræði í för með sér.

Snjallmælar annast sjálfir álestur og koma gögnum í rauntíma til Selfossveitna. Mælarnir hafa talsverða þýðingu fyrir notendur en með tilkomu þeirra er hægt að fylgjast betur með notkuninni og stilla hana af. Þetta dregur úr líkum á háum bakreikningum því með mælunum er auðvelt að sjá með einföldum hætti ef notkunin rýkur upp og því hægt að bregðast fyrr við ef eitthvað er bilað eða ekki í lagi.

Búnaðurinn sem um ræðir er frá fyrirtækinu Diehl í þýskalandi, en það er eins og áður sagði Set ehf á Selfossi sem flytur búnaðinn inn og mun annast verkið. Verkefnið er til næstu fimm ára en það tekur tíma að skipta út öllum mælum í kerfinu. Fyrsta afhending á mælum verður nú í júní.

Fyrri greinÁlfrún bætti HSK met í tveimur flokkum
Næsta greinSveitarfélög og þjóðin í Covid-19