Sérhannað hús fyrir veiturekstur á Suðurlandi

Veitur hafa tekið í notkun nýja aðstöðu fyrir umfangsmikla starfsemi sína á Suðurlandi. Nýja byggingin, sem er í Vorsabæ 9 í Hveragerði, gjörbyltir aðstöðu starfsfólks sem býr og starfar á Suðurlandi enda er það sérhannað fyrir veiturekstur.

Heildarstærð hússins er er 446 m2 sem skiptist í skrifstofuhluta og verkstæðishluta, allt á einni hæð. Í skrifstofuhlutanum eru skrifstofur, vinnuherbergi og fundaraðstaða auk kaffiaðstöðu fyrir starfsfólk og búningsherbergja. Verkstæðishlutinn skiptist í lager og almennt verkstæði með loftræstiklefa, tæknirými og inntaksrýmum.

Húsið er byggt af Viðskiptavit ehf og skrifstofuhluti þess uppsteyptur en iðnaðarhlutinn úr burðarvirki úr límtré ásamt yleiningum frá Límtré Vírnet.

Mikil áhersla var lögð á að hljóðvist væri sem best og að auðvelt væri að breyta skipulagi eða stækka byggingu síðar.

Verkið, sem er eitt af viðspyrnuverkefnum sem Veitur settu af stað árið 2020 til að styðja við atvinnulífið vegna Covid 19, gekk vel og stóðust allar tíma- og kostnaðaráætlanir. Heildarkostnaður við byggingu hússins er um 290 mkr.

Í tilefni verkloka var haldið opið hús og mættu þar góðir gestir. Á myndinni eru Haukur Þorvaldsson, verkstjóri Veitna á Suðurlandi, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.

Fyrri greinUglur frumsýnd á RIFF 2021
Næsta greinHrunamenn komnir á blað – Selfoss og Hamar töpuðu