Sérhæfð björgunarbifreið verður staðsett í Vík

Síðustu árin hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi þurft að fást við mjög erfið verkefni tengd náttúruhamförum og má þar á meðal nefna jökulhlaup í ám á svæðinu.

Skemmst er minnast þegar brúin yfir Múlakvísl brast fyrir þremur árum og ófremdarástand skapaðist í ferðaþjónustu og samgöngum í landshlutanum.

Til þess að geta brugðist skjótar við skapist álíka ástand aftur eða til að þvera stórar jökulár svæðisins hefur ríkisstjórn Bretlands ákveðið að gefa Slysavarnafélaginu Landsbjörg sérhæfða Foden Drops vörubifreið. Mun bifreiðin verða staðsett í Vík í Mýrdal og vera í umsjón Björgunarsveitarinnar Víkverja.

Samskip gaf félaginu flutning á bifreiðinni hingað til lands og í dag afhenti sendiherra Bretlands, Hr. Stuart Gill Slysavarnafélaginu Landsbjörg bifreiðina með formlegum hætti.

Afhendingartími bifreiðarinnar er sérstaklega hentugur sé tekið mið af óvissuástandi því sem Almannavarnir hafa lýst yfir við Múlakvísl og Sólheimajökul.

Fyrri greinGuðmundur með fyrirlestur um Lewis taflmennina
Næsta greinÁfram unnið á óvissustigi