Séra Kristján skipaður sóknarprestur

Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa séra Kristján Björnsson í embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli.

Sex umsækjendur voru um embættið sem veitist frá 1. júlí nk. Næstkomandi sunnudag, í sjómannadagsmessunni, verður innsetning sr. Kristjáns sem sóknarprests fyrir prestakallið. Innsetninguna annast prófastur, sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir.

Sr. Kristján hefur verið í afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli síðan í fyrrasumar en hann var áður sóknarprestur í Vestmannaeyjum.

Í Eyrarbakkaprestakalli eru þrjár kirkjur; Eyrarbakkakirkja, Stokkseyrarkirkja og Gaulverjabæjarkirkja.