Séra Haraldur kveður Mýrdælinga

Sr. Haraldur og frú Guðlaug í Skeiðflatarkirkju á 17. júní síðastliðinn.

Séra Haraldur M. Kristjánsson mun láta af störfum sem sóknarprestur í Víkurprestakalli þann 1. nóvember næstkomandi.

Hann tilkynnti sóknarbörnum og íbúum í Víkurprestakalli þetta í færslu á Facebook í gær. Sr. Haraldur og Guðlaug Guðmundsdóttir, kona hans, munu flytja frá Vík til Reykjavíkur.

„Um leið og ég tilkynni ykkur þetta þakka ég ykkur öllum dásamleg samskipti og vináttu á liðnum 35 árum. Ég hef áunnið mér lífeyrisrétt sem gerir mér kleift að hætta störfum nú. Samt sem áður mun ég verða ykkur nálægur í bráð og lengd. Ég segi mörgum að ég sé aðeins einu símtali eða einum tölvupósti í burtu og bíllinn minn fer þangað sem ég segi honum,“ segir Haraldur sem ætlar greinilega að halda áfram góðu sambandi við sóknarbörnin.

Séra Axel Árnason, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis, mun leysa af í Víkurprestakalli og hafa aðsetur í prestssetrinu á Ránarbraut 7 í Vík, þar til í lok maí á næsta ári að öllum líkindum. Þá verður ráðinn nýr sóknarprestur í stað sr. Haraldar.

Sr. Haraldur mun skipuleggja kveðjumessur í samráði við sóknarnefndir á næstunni og verða þær auglýstar sérstaklega. Næsta messa fráfarandi sóknarprests verður Regnbogamessa í Víkurkirkju næsta sunnudag, 10. október kl. 13:00.

Fyrri greinTvær sýningar á bókasafninu
Næsta greinMeisturunum skellt í fyrstu umferð