Sér ekki eftir því að henda sér í djúpu laugina

Elín Ólafsdóttir í Sjafnarblómum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Elín Ólafsdóttir frá Laugardælum hefur tekið við rekstri gjafavöru- og blómabúðarinnar Sjafnarblóma á Selfossi.

„Þetta var svo sem aldrei planið, Ég var með Sjafnarblóm á lista sem ég bjó til með stöðum þar sem ég gæti hugsað mér að vinna. Ég held að það hafi orðið til þess að ég ákvað að láta á það reyna að sækja um vinnu hér þegar ég sá auglýst starf fyrir rúmu ári síðan. Síðan fannst mér bara svo gaman að vinna hérna og vantaði meiri vinnu með haustinu,“ segir Elín í samtali við sunnlenska.is.

„Í haust var alveg ljóst að hjónin ætluðu ekki að reka blómabúð lengur, svo það var eiginlega bara í stöðunni að taka tilboðinu um að leigja reksturinn, eða fara leita að annarri vinnu. Það var ekkert alveg auðvelt að henda sér svona út í djúpu laugina, en ég sé ekkert eftir því,“ segir Elín en þess má geta að eigendur Sjafnarblóma, þau Dagga og Siggi, eiga og reka einnig Litlu garðbúðina, sem verður áfram í kjallara Sjafnarblóma og nýtur sívaxandi vinsælda meðal landsmanna.

Elín segir að rósirnar séu alltaf vinsælastar meðal blómanna en auk blóma býður hún upp á fjölbreytta og vandaða gjafavöru. „Ég hef ekki hugsað mér að breyta miklu. Búðinn verður bara með sama sniði áfram, með tímanum langar mig að vera með einhverjar partývörur t.d. pappa diska og glös fyrir barnaafmæli, en ég er ekkert að hugsa um það fyrr en eftir jólin,“ segir Elín að lokum.

Fyrri greinÁrborgarstrætó – fyrir alla
Næsta grein„Langþráður draumur að rætast“