Sendir eldri borgarana á Örkina

Grímsnes- og Grafningshreppur greiðir fyrir veru eldri borgara sveitarfélagsins á Sparidögum í Hótel Örk í Hveragerði. Árlegur kostnaður sveitarsjóðs vegna þessa er um 1,3 til 1,5 milljónir króna.

„Þeir sem hafa rétt á að fara eru þeir sem verða 67 ára á árinu og það eru 50-55 manns í sveitarfélaginu og af þeim taka um 30 til 35 þátt,“ segir Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri um málið.

„Það sem við greiðum er pakkatilboðið sem hótelið býður, inni í því er gisting, matur og skemmtun,“ segir Ingibjörg. Sveitarfélagið hefur gert þetta síðustu ár og er mikil ánægja með framtakið hjá eldri borgurum.

Að þessu sinni verða Sparidagarnir fyrir íbúa sveitarfélagsins 1. til 6. mars næstkomandi.

Fyrri greinOf mörg mistök í vörn og sókn
Næsta greinÁrgjöld GÞ þau lægstu á 18 holu velli