Sendibíllinn fór yfir á rangan vegarhelming

Lögreglan á Selfossi rannsakar nú banaslysið sem varð á Suðurlandsvegi austan Þingborgar á miðvikudaginn þegar ökumaður sendibíls lést í árekstri við vörubíl.

Skýrslutökur af ökumanni vörubílsins og vitna sem hafa gefið sig fram, sem og ítarleg skoðun á vettvangi hefur leitt í ljós að sendibíllinn fór yfir miðlínu vegarins og lenti með vinstra framhorn á vinstra framhorni vörubifreiðarinnar sem ekið var, á réttum vegarhelmingi, í gagnstæða átt. Við áreksturinn snérist sendibifreiðin og endaði út af veginum vinstramegin miðað við akstursstefnu hennar. Ökumaður hennar var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna þangað. Vörubifreiðin stöðvaðist sömuleiðis utan vegar vinstramegin miðað við akstursstefnu hennar.

Báðar bifreiðarnar verða rannsakaðar í bíltæknirannsóknarsetri lögreglunnar á Selfossi. Í þeirri rannsókn felst ástandsskoðun bifreiðanna sem og mælingar til grundvallar harðaútreininga sem unnir eru af prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands.

Einnig er beðið niðurstöðu krufningar á líki ökumanns sendibifreiðarinnar en endanleg niðurstaða hennar mun ekki liggja fyrir fyrr en að einhverjum vikum liðnum.

Fyrri greinSunnlendingar gerðu það gott á heimsleikunum
Næsta greinFetað í slóð Þórdísar ljósmóður