Sendibíll brann í Svínahrauni

Tveir menn sluppu ómeiddir þegar lítill sendibíll brann til kaldra kola í Svínahrauni í kvöld.

Tveir menn voru í bílnum sem ekið var vestur Suðurlandsveg. Þegar bíllinn var við gatnamótin að Þrengslavegi urðu mennirnir varir við eld í bílnum.

Slökkviliðið í Hveragerði var kallað á staðinn um kl. 21 en þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var bifreiðin alelda. Slökkvistarf tók skamma stund.

Ökumanni og farþega varð ekki meint af en bifreiðin er gjörónýt.