Senda ríkinu risavaxna skaðabótakröfu

Hópbílaleigan ehf. hyggst stefna fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins til að fá fram skaðabætur vegna brota Vegagerðarinnar gegn fyrirtækinu.

Vegagerðin mátti samkvæmt dómi ekki ganga framhjá fyrirtækinu í viðamiklu útboði fyrir fimm árum. Bæði héraðsdómur og hæstiréttur dæmdu Hópbílaleigunni í vil og sögðu félagið eiga rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins en aðilar málsins hafa ekki komist að samkomulagi um hver upphæð bótanna á að vera. Þrjú ár eru liðin frá dómi Hæstaréttar.

Telja forsvarsmenn Hópbílaleigunnar sig ekki eiga annarra kosta völ en að stefna ríkinu til að fá fram bætur fyrir þann skaða sem þeir telja fyrirtækið hafa orðið fyrir vegna tekjumissis og málareksturs sem málið leiddi af sér.

Þá hafa forsvarsmenn þess farið fram á það að samgönguráðherra skoði hvernig að málinu var staðið að hálfu Vegagerðarinnar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað aftur. Telja þeir að í ljósi þess að stofnunin tók ekki hagstæðasta tilboði hafi ríkið í tilvikum orðið að greiða milljónatugi umfram það sem það hefði þurft að gera.

Málið snýst um útboð af hálfu Vegagerðarinnar varðandi sérleyfi hópferðabíla á Suðurlandi og Suðurnesjum, þar með talinn akstur til og frá Keflavíkurflugvelli, sem og skólabílaakstur fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Átti Hópbílaleigan lægsta boð í sérleyfið og skólabílaakstur á Suðurnesjum. Á Suðurlandi átti Þingvallaleið lægra tilboð en Hópbílaleigan en féll stuttu seinna frá tilboði sínu. Vegagerðin taldi Hópbílaleiguna ekki geta staðið undir skuldbindingum sem verkefnið fól í sér og samdi við aðra.

Kærði Hópbílaleigan þá niðurstöðu og vann málið bæði í héraði og hæstarétti eins og fram hefur komið og þurfti ríkið að greiða málskostnað að upphæð 1,1 milljón króna.

Ljóst er að það eru smáaurar miðað við þær bætur sem Hópbílaleigan fer fram á vegna hagnaðarmissis, en um er að ræða gríðarlega mikilvægar sérleiðir, ekki síst tengingin við Keflavíkurflugvöll og möguleikann á frekari tengingu við flutning erlendra ferðamanna um Suðurland og suðvesturhorn landsins. Eftir því sem næst verður komist verður bótakrafa fyrirtækisins ekki undir 100 milljónum króna.

Fyrri greinVegtengingum fækki um þrjátíu
Næsta greinSkortur á nautgripum