Selurinn í veglegri jeppaferð í boði Suðurlandsdeildar 4×4

Ljósmynd/Aðsend

Árla morguns laugardagsins 26. október mátti heyra hávær vélarhljóð þegar hersing breyttra jeppa á vegum Suðurlandsdeildar Ferðaklúbbsins 4×4 renndi úr hlaði frá félagsmiðstöðinni Zelsíuz á Selfossi.

Hópurinn var að leggja af stað í árlega ævintýraför með meðlimi Selsins. Selurinn er félagsstarf fyrir fatlaða á Selfossi en meðlimir hans hittast tvisvar sinnum í viku í félagsmiðstöðinni. Dagskráin í Selnum er fjölbreytt en stærsta stundin ár hvert er þessi veglega jeppaferð sem Suðurlandsdeildin stendur allan straum af. Var þetta ellefta árið í röð sem deildin býður Selnum í ferðina.

Lagt var í hann á níu veglegum jeppum frá Selfossi í fallegu haustveðri í áttina að Þorlákshöfn. Þar fengu meðlimir Selsins að skoða stærðarinnar hval sem hafði rekið á land. Það þótti þeim afar spennandi. Að skoðuninni lokinni var brunað upp í Bláfjöll þar sem ekið var meðfram skíðasvæðinu og upp í skála efst í fjallinu. Þar gæddu allir sér á pylsum sem jeppakallarnir grilluðu ofan í mannskapinn og fengu að átinu loknu smá sætabrauðsbita í eftirrétt.

Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var ekið heimleiðis í gegnum leið sem er kölluð Þúsundvatnaleiðin. Selirnir skiptust á að rabba í talstöðvar bílanna og mátti heyra ærandi hlátrasköll þegar brandararnir flugu á milli bílanna. Á leiðinni brunuðu jepparnir yfir ár og læki og var mikil spenna allra ferðafélaga þegar gusugangurinn gekk yfir bílana.

Ferðin tókst vel og voru allir mjög ánægðir og þreyttir við heimkomuna á Selfoss.

Meðlimir Selsins kunna Suðurlandsdeild ferðaklúbbs 4×4 bestu þakkir fyrir þetta rausnarlega boð. Sjáumst að ári.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHamar styrkir stöðu sína á toppnum – Selfoss tapaði
Næsta grein„Bærinn er að vaxa í sólarátt“