Selur, stillir og gerir við

Jósep Helgason opnaði fyrir stuttu hljóðfæraverslun sem er til húsa í Hjólabæ á Selfossi. Nokkuð er síðan síðast var rekin hljóðfærarverslun á svæðinu og nú þarf tónlistarfólk ekki lengur að sækja dótið sitt yfir heiðina.

Jósep segir söluna hafa farið vel af stað og að fólk hafi tekið þessari viðbót vel. Hægt er að kaupa alls konar hljóðfæri auk þess ýmissa smáhluta. Þá segir hann að úrvalið í búðinni muni aukast töluvert á næstunni þegar að jólasendingin kemur í hús.

Auk þess að selja hljóðfærin býður Jósep einnig upp á stillingar og viðgerðir á strengjahljóðfærum. Hann hefur menntað sig í hljóðfærasmíði og eru tveir gítarar sem hann smíðaði frá grunni í kringum það nám til sýnis í versluninni.

Þá er hann einnig opinn fyrir því að smíða gítara fyrir fólk frá grunni. Ef einhver hefur áhuga á því að fá draumagítarinn sem smíðaður er eftir þeirra höfði þá má vel ræða það við Jósep.

Fyrri greinVestfirsk Bókamessa í Bókakaffinu
Næsta greinHamar heldur sigurgöngunni áfram