Selur sand úr Landeyjahöfn

Ingimar Georgsson, kaupmaður í Vöruval í Vestmanneyjum, selur nú sand úr Landeyjahöfn en allur ágóði rennur til Siglingamálastofnunar.

Eyjafréttir greina frá þessu en í fréttinni segir Ingimar sandinn henta vel í hálkunni og í raun fela í sér gjaldeyrissparnað, hann komi í stað hálkueyðandi efnis.

„Ágóðinn rennur til Siglingastofnunar, ég hafði samband við tollstjóra og þessi vara fellur í sama flokk og kattasandur sem ber 25,5% virðisaukaskatt. Ágóðinn væri meiri ef ég hefði komist beint í Landeyjahöfn til að sækja sandinn en ég þurfti að fara í Þorlákshöfn og keyra svo í Landeyjahöfn.

Þetta hefði getað gefið betur og ekki heldur hægt að fá sand frá Skandiu þar hún er alltaf biluð. En þetta er samt gert af tómri gleði. Við erum búin að selja töluvert og vonum að stofnunin noti peningana til endurbóta á Landeyjahöfn,“ sagði Ingimar í samtali við Eyjafréttir.