Selur ónotaðar eignir

Rangárþing ytra hefur auglýst nokkrar landareignir og spildur til sölu, allt frá litlum spildum í Þykkvabæ upp í heila eyðijörð.

Eignasalan er í höndum fasteignasölunnar Fannbergs á Hellu. Jörðin sem um ræðir er 1.350 hektarar, Árbær á Rangárvöllum, sem fór í eyði undir lok 19. aldar. Jörðin er staðsett á milli jarðanna Foss og Keldna og liggur Fjallabaksleið syðri í gegnum land Árbæjar og Eystri Rangá rennur um austurmörk hennar. Að stærstum hluta er landið hulið hrauni en um tíu prósent er gróið land, ekki síst meðfram ánni. Árhlutinn er þó ofan fossa og því engin fiskgengd að óbreyttu.

Þá eru til sölu 210 hektarar úr jörðinni Merkihvoli. Landhreppur átti þessa jörð og með sameiningu sveitarfélaganna varð jörðin í eigu Rangárþings ytra. Þar hefur verið byggt talsvert af sumarbústöðum nærri skóglendi en hluti jarðarinnar er skógi vaxinn, en umrætt svæði er einnig gróið hraun. Að sögn Guðmundar Einarssonar hjá Fannbergi er mögulegt að fjölga þar sumarhúsalóðum.

Þessu tilviðbótar eru auglýstar lóðir og spildur í Þykkvabæ, allt frá 1.935 fermetra lóðum upp í 45 hektara af spildum í Norður-Nýjabæ.

Guðmundur segir að sveitarfélagið sé með þessu að selja eignir sem það hafi ekki bein not fyrir og því sé eðlilegt að koma þeim í verð. Óskað er eftir tilboðum í eignirnar en að sögn Guðmundar hefur verið lítil hreyfing á jarðareignum í Rangárvallasýslunni eins og víðar.

Fyrri greinKaupa sturtustól fyrir fatlaða
Næsta greinKanna heilsufar á eldgosasvæði