Selós og Vaðlaborgir kaupa GHS

Félag í eigu Vaðlaborga og Selóss hefur keypt starfsemi Glugga- og hurðasmiðju Suðurlands og rekur nú verkstæði undir merkjum Selóss þar sem GHS var til húsa í Gagnheiði 72.

Verkstæði Selós við Eyraveg brann í júní sl. en gert verður við húsið og það selt.

Glugga- og hurðasmiðjan varð gjaldþrota á síðasta ári en síðan um síðustu áramót hefur reksturinn verið í höndum Glugga ehf. á Akureyri. Voru á tímabili áform um að flytja félagið norður fyrir heiðar en Gluggi ehf. er mjög umsvifamikill þegar kemur að álgluggum. Þrátt fyrir söluna núna er gert ráð fyrir áframhaldandi samstarfi fyrirtækjanna.

Að sögn Axels Þórs Gissurarsonar, framkvæmdastjóra Selóss, verða á milli 12 og 15 starfsmenn hjá fyrirtækinu. ,,Þetta er ein af þremur fullkomnustu verksmiðjum landsins á þessu sviði og það myndi kosta um 300 milljónir króna að koma henni á laggirnar í dag. Við teljum að það séu mikil samlegðaráhrif í þessu, hvort sem það kemur að mannskap, húsnæði eða tækjum,“ sagði Axel í samtali við Sunnlenska.