Selja 26 íbúðir og hlutinn í Fontana

Byggingarfélag námsmanna, BN, hefur sett allar eigur sínar á Laugarvatni í sölu. Um er að ræða 26 íbúðir í þremur fjölbýlishúsum og 23% eignarhlut í Laugarvatn Fontana.

Að sögn Böðvars Jónssonar, framkvæmdastjóra BN, var það ákvörðun stjórnar félagsins að selja íbúðirnar þar sem þær nýtast ekki lengur námsmönnum. Eftir söluna mun félagið eingöngu eiga íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðirnar voru upphaflega byggðar í tengslum við starfsemi Kennaraháskólans á Laugarvatni.

Laugarvatn Fontana er baðhús byggt í kringum gufubaðið á Laugarvatni en staðurinn opnaði í júlí í fyrra. Gufa ehf. á og rekur baðaðstöðuna og á BN 23% hlut í félaginu.