Selfyssingum hrósað fyrir uppbyggingarstarf sem aðrir njóta góðs af

Selfyssingurinn Einar Sverrisson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild ÍBV til eins árs. Einar er á lánssamning frá Selfossi.

Einar er 23 ára gamall, fæddur, uppalinn og akademíugenginn á Selfossi. Hann kom frá Selfyssingum fyrir síðustu leiktíð og átti fínasta tímabil með ÍBV sem varð bikarmeistari í vetur.

Í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV þakka Eyjamenn Selfyssingum fyrir lánið á góðum dreng.

„Selfyssingar eiga mikið hrós skilið fyrir frábært uppbyggingastarf á undanförnum árum sem aðrir njóta góðs af í dag, samanber Íslandsmeistarar Hauka, deildarmeistarar Vals og bikarmeistarar ÍBV. ÍBV lofar að fara vel með drenginn og skila honum í toppstandi og tilbúinn í titlasöfnum fyrir sitt heimafélag,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri greinSameiningu Landsbankans og Sparisjóðsins að ljúka
Næsta grein„Færni, sjálfstraust og sköpunargleði“