Selfyssingar versla í heimabyggð

Verslunin Fantasía á Selfossi opnaði í síðustu viku á nýjum stað að Eyravegi 2 í nýuppgerðu húsnæði.

María Ragna Lúðvígsdóttir, rekur verslunina ásamt dætrum sínum þremur, þeim Stefaníu, Karolínu og Þóru Andreu.

„Þetta er besti staðurinn á Selfossi, það er gríðarleg traffík hérna fyrir utan og það blómstrar allt í góðu veðri, fólk fer á stjá og þess fluttum við, út af staðsetningunni, til að fá gangandi traffík, mömmurnar með vagnana og svona,“ segir María um ástæður þess að þær mæðgur fluttu verslunina.

“Mér finnst þetta ofsalega gaman, ég fæ mikið af kúnnum á Selfossi til mín og það er ekki mín reynsla að Selfyssingar versli ekki í heimabyggð eins og margir vilja meina,” segir María þegar hún er spurð hvernig það er að vera kaupmaður á Selfossi, “Við pössum að hafa ekki mikið af hverju til sölu, en helmingur af okkar sölu er í gegnum netið og hinn helmingurinn í versluninni.” Aðal áhugamál Maríu er saumaskapur og er hún ánægð með að fá betri saumaaðstöðu á nýja staðnum, enda sauma þær mæðgur sjálfar mikið af þeim fatnaði sem er til sölu í Fantasíu.

María er lærður tölvunarfræðingur. Hún segir það einkennilegt að tölvunarfræðingar fái helmingi lægri laun á Selfossi en í Reykjavík, en hún starfaði þar lengi vel sem slíkur. “Það er gott að hafa góða vinnu á Selfossi svo maður geti lifað í þessu samfélagi sem maður býr í og þurfa ekki alltaf að leita yfir heiðina. Það er gott að eiga lítinn rekstur sem getur framfleytt manni, maður verður að reyna að skapa sér vinnu,” segir María að lokum.

Fyrri greinUngfrú Suðurland: Sandra Silfá
Næsta greinMikið sungið í Þorlákshöfn