Selfyssingar semja við Røyrane

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við Norðmanninn Jon Andre Røyrane um að leika með liðinu í Pepsi-deild karla í sumar.

Røyrane hefur verið til reynslu á Selfossi undanfarna daga og staðið sig vel. Hann er 28 ára gamall miðjumaður og hefur leikið 33 leiki í efstu deild í Noregi fyrir Sandefjörd og skorað í þeim fjögur mörk.

Hann er fjórði Norðmaðurinn í leikmannahópi Selfoss en fyrir eru þeir Endre Ove Brenne og Ivar Skjerve, sem léku með Selfossi í fyrra og Robert Sandnes sem gekk í raðir félagsins fyrr í vetur.