Selfyssingar orðnir 10 þúsund

Selfoss. sunnlenska.is/Egill Bjarnason

Íbúar Selfossbæjar eru orðnir 10 þúsund talsins og hafa aldrei verið fleiri. Múrinn var rofinn um síðustu helgi.

Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi, vekur athygli á þessu á Facebooksíðu sinni en hann fékk upplýsingarnar staðfestar frá Þjóðskrá í morgun.

„Íbúatalan er búin að vera rétt um og yfir 10 þúsund í vikunni en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá í morgun eru Selfyssingar núna 10.083 talsins,“ segir Tómas Ellert í samtali við sunnlenska.is.

Íbúar Sveitarfélagsins Árborgar eru í dag 11.720 og allt útlit fyrir að 12 þúsund íbúa múrinn verði rofinn í kringum næstu áramót. Fjölgun Árborgara hefur verið um 5,4% á þessu ári.

Og þetta er ekki það eina sem gleður Tómas Ellert þessa dagana. Í spjalli við sunnlenska.is bendir Tómas Ellert blaðamanni á að Selfoss sé nú komið á veðurspákort Veðurstofunnar en áður voru aðeins birtar veðurathuganir frá Selfossi. Allt um það á vedur.is.

Fyrri greinBrandararnir hans pabba eru alveg milljón
Næsta greinÞórsarar sigruðu heima en Hamar tapaði