Selfosslöggan fær tvo Skoda

Bílafloti lögreglunnar á Selfossi er að endurnýjast en embættið fær tvo nýja Skoda Superb í vikunni í stað eldri Volvo bifreiða.

Það er Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra sem leigir bílana til embættisins en Volvobifreiðarnar sem verið er að skipta út eru eknar um og yfir 400 þúsund kílómetra.

Nýju bílarnir eru Skoda Superb II disel, turbo með nýrri og stærri vél en áður. Bifreiðarnar eru með öflugum staðalbúnaði ásamt sérbúnaði fyrir lögregluna. Á meðal sérbúnaðar er Golden Eagle radar, Eyewitnes upptökubúnaður, Tetra Cleartone talstöð, ferilvöktun og Garmin Nuvi 710 staðsetningartæki.

Á bifreiðinni er ný tegund af ljósaboga sem gefur mikið og sterkt ljósmagn og hafa ljósin mun minni straumþörf og vindmótstöðu en eldri gerð af ljósabogum. Að framan er öryggisgrind með öflugum ljóskösturum. Einnig er öflug öryggisgrind á milli farangurs- og farþegarýmis ásamt hirslu fyrir búnað í farangursrými.