Selfossbæir fallegasta gatan í Árborg

Selfossbæir er fallegasta gatan í Árborg 2015 en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn síðdegis í dag.

Það er framkvæmda- og veitustjórn Árborgar sem stendur fyrir umhverfisverðlaununum en hvert sumar er kallað eftir tilnefningum frá íbúum sveitarfélagsins.

Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, afhjúpaði verðlaunaskilti við þetta tilefni. Auk þess er hefð fyrir því að elsti og yngsti íbúi götunnar fái blómvönd og afhenti Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, þeim Gunnari Gunnarssyni, 86 ára og Sigrúnu Drífu Þorfinnsdóttur, 18 ára, vendina.

„Ég held að það sé vel til fundið að verðlauna Selfossbæi, hér er gróðursælt og skjólsælt og íbúarnir leggja greinilega metnað í það að hafa umhverfið snyrtilegt,“ sagði Ásta við afhendingu verðlaunanna.

Verðlaunin fyrir fallegasta garðinn og snyrtilegasta fyrirtæki sveitarfélagsins verða afhent í morgunverðarhlaðborðinu í Sigtúnsgarði kl. 10:00 á laugardagsmorgun.
Fyrri greinEnglar og menn í Strandarkirkju
Næsta greinHamar missti af úrslitakeppninni