Seldist upp á fjórum klukkustundum

Gleðigjafinn Guðrún. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Það er erfitt að finna einstakling sem er jafn jákvæður og peppandi og Guðrún María Hafþórs, markþjálfi á Selfossi. Hvar sem hún kemur dreifir hún gleði og jákvæðni og meira að segja verstu fýlupúkar komast í betra skap eftir að hafa hitt hana.

Nýverið hóf Guðrún bókstaflega framleiðslu á jákvæðni og peppi. Hún setti í sölu armbönd og plaköt með skemmtilegum og jákvæðum orðum og er óhætt að segja að hvort tveggja hafi vakið mikla lukku. Til að mynda seldust armböndin upp fjórum klukkustundum eftir að þau komu í sölu.

„Ég pantaði armböndin eina nóttina. Ég er náttúrulega með snar skrítinn orðaforða og segi bara það sem ég hugsa og hugsa ekki áður en ég tala, þannig að það koma oft alls konar skrítnar setningar út úr mér. Fólk var búið að senda á mig hvað þetta væri hrikalega fyndið og ferlega skemmtilegt, svo að ég ákvað bara að gera armbönd með þessum setningum. Setningum sem eru líka hvetjandi inn í daginn,“ segir Guðrún í samtali við sunnlenska.is.

Fann hugrekkið á árinu
Guðrún segir að hún hafi ákveðið að árið 2025 yrði árið sem hún ætlaði bara að gera það sem henni dytti í hug.

„Ég ætlaði að framkvæma áður en ég hætti við. Segja bara já við öllu. Nota hugrekkið. Ég fann hugrekkið eftir að hafa misst heilsuna. Þetta var pínu svona „lífið er núna“ móment. Að vera ekki að fela mig eða hafa ekki áhyggjur af því hvað öðrum finndist, bara gera það sem mig langaði og gera það áður en ég hætti við það,“ segir Guðrún en hún missti heilsuna eftir að hafa lent í myglu.

Guðrún segir að hugrekkið hafi einnig komið þegar hún fór að opna sig meira á Instagram. „Ég fór að ræða um veruleikann og leitina að heilsunni og fékk góðar viðtökur. Fólki þótti ljúft að sjá lífið hjá öðrum eins og það er. Góðir og vondir dagar sem svo endanlega sprakk út og hjálpaði mér að finna hver ég er,“ segir Guðrún og bætir því við að öll fallegu skilaboðin frá fólki hafi gefið henni mjög mikið.

Guðrún fann hugrekkið á árinu og hefur nýtt það vel. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Er líka gott málefni
Upphaflega var pælingin hjá Guðrún að selja armböndin til að styrkja gott málefni en þau áform breyttust örlítið, að minnsta kosti í bili.

„Þetta fór úr því að styrkja gott málefni, allavega enn sem komið er, í að styrkja sjálfa mig. Ég fór í markþjálfunarnám fyrr á árinu hjá Virkja sem ég kláraði í júní síðastliðnum og er svo búin að skrá mig í framhaldsnám sem byrjar í janúar og kostar 800.000 þúsund. Námið hjá Virkja hjálpaði mér að tengjast sjálfri mér, finna hvað ég vildi og finna hugrekkið og trúna á sjálfa mig. “

„Bróðir minn sannfærði mig um það að ég væri líka gott málefni. Ég er því núna að safna mér fyrir náminu og svo tekur við seinna að styrkja til dæmis Alzheimer-samtökin eða eitthvað annað,“ segir Guðrún.

Plaköt og armbönd með skemmtilegum og jákvæðum setningum. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Sprakk í höndunum á mér“
Guðrún segir að viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar við bæði armböndunum og plakötunum. „Fyrsta sendingin af armböndunum seldist upp á fjórum klukkutímum, sem er alveg galið. Ég var eiginlega bara svolítið sveitt eftir fjóra klukkutíma að panta meira. Þriðja sendingin er svo á leiðinni núna. Þetta er bara ótrúlega magnað.“

„Plakötin eru búin að fara um allt land, armböndin ganga hraðar. Þetta er bara byrjunin, þetta er bara nýbyrjað og einhvern veginn sprakk í höndunum á mér og er ótrúlega skemmtilegt.“

Armböndin seljast eins og heitar lummur. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Það eru armbönd á leiðinni fyrir herra. Það eru líka plaköt á leiðinni sem eru meira fyrir herra, sem eru hugsuð svona afmælis- og jólagjöf og útskriftargjafir. Þetta er ekki bara fyrir kvenfólk. Það er reyndar rosa mikið af karlmönnum búið að panta alls konar setningar.“

„Ég átti alls ekki von á þessum góðu viðtökum. Þetta var meira svona bara ég að vera hvatvís og gera það sem mig langaði og svo verð ég bara að go with the flow. Ótrúlega skemmtilegt,“ segir Guðrún en hægt er að nálgast verk hennar á Instagram-síðunni hennar. Einnig er hægt að kaupa plakötin í versluninni Krílafló á Selfossi.

Konan með gulu miðana
Með verkum Guðrúnar fylgja gulir miðar með fallegum og jákvæðum setningum. Þessir gulu miðar eru vísun í gulu post-it miðana sem segja má að hafi komið upp um gleðigjafann hana Guðrúnu. Þegar Guðrún vann hjá Póstinum á Selfossi þá lét hún gjarnan fylgja gula post-it miða með jákvæðum setningum með sendingum frá Póstinum. Þessir miðar vöktu mikla athygli og gleði á sínum tíma meðal bæjarbúa á Selfossi.

„Þetta var í covid-inu sem var áskorun fyrir alla. Þetta byrjaði á því að ég átti sjálf frekar erfiðan dag og var pínu leið. Ég hugsaði með sjálfri mér að ég væri örugglega ekki sú eina sem liði eitthvað illa og hugsaði að það gæti verið gaman að fá falleg skilaboð út í daginn svo að ég byrjaði að skilja eftir post-it miða með pökkunum í póstboxinu,“ segir Guðrún og segir að enn í dag sé hún þekkt sem konan með gulu miðana.

„Ég var einu sinni í flugvél á leiðinni til útlanda og þá pikkar í mig ókunnug kona sem sagði mér að ég hefði bara bjargað deginum hennar. Hún átti bara ömurlegan dag og leið mjög illa. Hún sótti pakka í póstboxið sitt og fékk svona gulan miða með orðsendingu frá mér og hún talar ennþá um þetta.“

„Svo var einhver sem fór að skilja eftir rós í staðinn, ég hef ekki hugmynd um það hver það var en það var ótrúlega krúttlegt. Fólk var farið að skilja alls konar eftir í staðinn þegar það sótti pakkana sína. Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“

Guðrún er þekkt af mörgum sem konan með gulu miðana. Ljósmynd/Guðrún

Skilur eftir gula miða í mátunarklefanum
Guðrún segir að hún noti mikið gula miða í vinnunni og hafi alltaf gert. „Ég er náttúrulega með ADHD og þarf að muna alls konar en ég hef gert þetta hérna heima líka, hendi miða á speglinn eða ísskápinn,“ segir Guðrún en þess má geta að hún stafar núna hjá Húsasmiðjunni á Selfossi þar sem hún er aðstoðarrekstrarstjóri.

„Ég geri þetta ennþá. Ég er alltaf með post-it miða í töskunni og ef ég fer í mátunarklefa í Kringlunni eða Smáralind þá skil ég eftir miða á speglinum með jákvæðum og peppandi orðum. Ég veit að þetta gefur svo mikið. Maður veit aldrei hvernig öðrum líður. Það er alltaf einhver sem á ömurlegan dag og þá þarf ekki annað en eitthvað svona; bros, kurteisi, gott viðmót eða bara svona pínulítil skilaboð.“

Guðrún skilur reglulega eftir gula miða í mátunarklefum. Ljósmynd/Guðrún

„Það er svo mikilvægt að hrósa öðru fólki. Þetta vindur upp á sig því að um leið og þú býður fallega góðan daginn, brosir framan í fólk eða hrósar öðru fólki þá færðu það strax til baka. Þetta er bara eins og spegill. Alveg sama hvernig þú kemur fram við annað fólk, þetta er alltaf eins og spegill. Mér líður alltaf betur þegar ég ákveð að taka daginn svona, þó að það sé mis auðvelt, það er bara svoleiðis. Það kostar ekkert að vera næs,“ segir Guðrún að lokum.

Fyrri greinBjörgvin ráðinn fjármálastjóri í Bláskógabyggð
Næsta greinEyrarbakkavegur lokaður á fimmtudag