Sektargreiðslur gærdagsins um 3 milljónir króna

Lögreglan á Mýrdalssandi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Jóhanna S. Hannesdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði 45 ökumenn fyrir hraðakstur í gær og stærstur hluti þeirra voru erlendir ferðamenn.

Sá sem hraðast ók var mældur á 152 km/klst hraða á Mýrdalssandi og kvaðst ökumaður hafa gleymt sér þar sem hann hafi verið svo hugfanginn og snortinn af landslaginu. Tveir aðrir ökumenn voru mældir á sviptingarhraða eða 146 og 147 km/klst hraða.

Nær allir ökumenn greiddu sektina á staðnum og ef eingöngu er horft á þá 26 ökumenn sem kærðir voru fyrir hraðakstur á Mýrdalssandi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs greiddu þeir samtals rúmlega 1,6 milljónir króna í sekt.

Ef litið er á heildarsektargreiðslu þessara 45 ökumanna sem kærðir voru fyrir hraðakstur í gær hjá embættinu nemur sektarfjárhæðin samtals um 3 milljónir króna.

Fyrri grein„Sveitaball eins og árið 1999“
Næsta greinRagnarsmótið hefst í kvöld