Sektaður fyrir ónæði af reykspóli

Einhver hafði reykspólað duglega í Hrísmýrinni. Ljósmynd/Aðsend

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði ferð bíls sem ók norður Tryggvagötu á Selfossi um miðnæturbil á laugardag en ökumaðurinn bæði reykspólaði og fór yfir á rauðu ljósi.

Tvítugur ökumaðurinn greiddi sína sekt á staðnum, 70 þúsund krónur, en hann var bæði sektaður fyrir að aka gegn rauðu ljósi, sem og að valda hávaða og ónæði af reykspóli.

Skildi eftir logandi gúmmí á götunni
Hann komst hins vegar undan, ökumaðurinn sem reykspólaði í Hrísmýrinni á Selfossi eftir hádegi í gær, en skildi eftir sig logandi vísbendingar á götunni.

Vegfarendur sem leið áttu um Suðurlandsveg héldu að það væri kviknað í Frímúrarahúsinu eða einhverri bílasölunni en þykkan reykjarmökk lagði yfir hverfið. Slökkviliðið var þó hvergi sjáanlegt en einhver hafði spólað duglega á götunni og logaði enn í gúmmíinu þegar fólk bar að.

Fyrri grein730 mál í dagbók vikunnar
Næsta greinÞórsarar sigruðu á heimavelli