Seiðasleppingum lokið

Í sumar var 33.669 seiðum sleppt í Veiðivötn. Þetta er álíka magn og á síðasta ári. Mest var sleppt í Litlasjó, 16.235 seiðum. Afgangurinn dreifðist á mörg vötn.

Seiðin voru öll ársgömul, um 30 grömm að þyngd, 8-10 sm. Einar Brynjólfsson í Götu í Holtum sá um klak og seiðauppeldi eins og undanfarin þrjú ár.

Á heimasíðu Veiðivatna segir að seiðasleppingar í vötnin sé í flestum tilfellum nauðsynleg aðgerð til að hægt sé að halda uppi stórum fiskistofnum í vötnum þar sem náttúrulegt klak er takmarkað.

Ekki er sleppt í Fossvötnin, þar eru hrygningarskilyrði góð fyrir urriðann og hvergi er sleppt bleikju á Veiðivatnasvæðinu. Bleikjan sér um sig sjálf.

Heldur róleg veiði hefur verið í Veiðivötnum í sumar. Í liðinni viku veiddust aðeins 819 fiskar, 596 urriðar og 223 bleikjur. Alls hafa 12.425 fiskar komið á land í vötnunum það sem af er sumri.

Fyrri greinÆgir tapaði á Dalvík
Næsta greinEnginn lífrænn úrgangur fluttur úr sveitarfélaginu