Segja yfirlýsingar Íbúðalánasjóðs ekki hafa staðist

Á síðasta fundi sínum lýsti bæjarstjórn Árborgar yfir miklum vonbrigðum með stöðu mála hjá Íbúðalánasjóði. Auðum íbúðum sjóðsins í Árborg hefur fjölgað síðasta árið.

„Um mitt síðasta ár var fjöldi auðra íbúða í eigu Íbúðalánasjóðs fimmtíu talsins, samkvæmt upplýsingum sjóðsins, en eru nú áttatíu og hefur því fjölgað um nálægt 60%. Yfirlýsingar sjóðsins um sölu eigna og leigu hafa því ekki staðist. Þvert á móti hefur íbúðunum fjölgað mjög,“ segir í sameiginlegri bókun allra bæjarfulltrúa Árborgar.

Samkvæmt upplýsingum bæjarstjórnar var heildarfjöldi íbúða Íbúðalánasjóðs í Árborg 122 í febrúar í fyrra, en eru nú 159 talsins. „Við þetta verður ekki lengur unað,“ segja bæjarfulltrúarnir.

Fyrri greinHefur áhyggjur af þrengslum við Sýslumannstúnið
Næsta greinFólki bjargað úr þremur rútum á Skeiðarársandi