Segja upp þjónustu við fatlaða

Fulltrúaráð Sólheima hefur heimilað framkvæmdastjórn Sólheima að segja upp þjónustu við fatlaða og sömuleiðis ráðningasamingum, leigusamningum og öðrum skuldbindingum.

Skipað verður sérstakt þjónustu- og áfallateymi fyrir íbúa, starfsfólk og aðstandendur til að takast á við óvissuna og erfiðleikana sem framundan er.

Sveitarfélögum á Suðurlandi verður boðið að taka á leigu húseignir að Sólheimum til eins árs, takist samningar fyrir 31. desember til að standa megi vörð um þjónustu við þá 43 fötluðu einstaklinga sem búa að Sólheimum.

Félagsmálaráðuneyti hefur tilkynnt að fjárveitingar til Sólheima falla niður 1. janúar. Fulltrúaráð Sólheima harmar niðurstöðu málsins og lýsir allri ábyrgð á stöðu þess á félagsmálaráðherra og félagsmálanefnd Alþingis.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag kom fram að fulltrúráð og framkvæmdastjórn Sólheima hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til að finna ásættanlega lausn á þeim málum sem Sólheimar standa frammi fyrir vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og tryggja rekstur Sólheima og þjónustu við fatlaða, en ekki fengið neinar undirtektir frá stjórnvöldum.

Samþykkt fulltrúaráðs Sólheima og erindum framkvæmdastjórnar svo og tillögum að samkomulagi um lausn málsins hefur ekki verið svarað. Lokatilraun framkvæmdastjórnar Sólheima var að leggja fyrir félagsmálanefnd Alþingis tillögu um að sett yrði bráðabirgðaákvæði í lagafrumvarpið um flutning málaflokksins sem heimilaði jöfnunarsjóði sveitarfélaga að gera samning við Sólheima og gilti til ársloka 2014. Þeirri tillögu hefur nefndin hafnað.

Sjálfseignarstofnunin hyggst reka áfram aðra starfsemi að Sólheimum, svo sem Sesseljuhús, verslun, garðyrkjustöð og gistiheimili. Felur fulltrúaráðið framkvæmdastjórn að hefja nú þegar viðræður við innlenda og erlenda aðila um ný viðfangsefni í þeirri viðleitni að tryggja stöðu Sólheima til framtíðar.

Allt frá stofnun Sólheima árið 1930 hafa Sólheimar verið þjónustuúrræði fyrir fatlaða á landsvísu, en ekki svæðisbundið. Allir fatlaðir íbúar að Sólheimum eru fæddir utan sveitarfélagsins. Sólheimar eru elsti þjónustuveitandi fatlaðra á Íslandi og elsta byggðahverfi í heimi sem veitir fötluðum þjónustu.