Segja sig úr samráðshópi um skólamál

Birna Guðrún Jónsdóttir, Pétur Thomsen og Vigdís Garðarsdóttir hafa sagt sig úr samráðshópi um sameiningu leik- og grunnskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Um leið og þau tilkynntu sveitarstjóra um afsögn sína í lok síðustu viku lýstu þremenningarnir yfir vantrausti á störf samráðshópsins. Birna og Pétur voru fulltrúar foreldra í nefndinni en Vigdís er fulltrúi fræðslunefndar hreppsins þar sem hún situr fyrir K-listann sem er í minnihluta sveitarstjórnar.

Leikskólinn Kátaborg og Grunnskólinn Ljósaborg voru sameinaðir þann 1. janúar sl. Níu fulltrúar skipa samráðshópinn sem tók til starfa fyrir áramót og er ætlað að starfa fram á vor. Hópurinn á að fjalla um framtíðarskipan leik- og grunnskólans.

Í greinargerð með afsögninni segja þremenningarnir það skýra afstöðu sína að skólinn eigi að vera upp í 10. bekk. Meirihluti sé fyrir því í samráðshópnum þrátt fyrir að það komi ekki fram í fundargerðum. Þá hafi tillögur og andmæli einstakra fulltrúa ekki verið færðar í fundargerðir og þar af leiðandi komi ranglega fram samstaða í hópnum.

Þau Birna, Pétur og Vigdís segja niðurstöðu samráðshópsins fullmótaða áður en hafist var handa við hugmyndavinnu hópsins. „Hugmyndir einstaklinga innan hópsins voru ekki skoðaðar og ræddar á lýðræðislegan hátt. Í rauninni var ekki farið fram á hugmyndir einstaklinga nema að mjög litlu leyti og þær hugmyndir sem fram komu fengu ekki neina umræðu á fundum,“ segja þau. „Samráðshópur ætti að vera ópólitískur og vinna lýðræðislega með það að markmiði að leggja fram tillögur til sveitarstjórnar.“

Meðal annarra atriða sem þau nefna eru að forsendur sameiningar leik- og grunnskóla standist ekki. Lagt hafi verið upp með sparnað og hagræðingu í yfirbyggingu stofnunarinnar sem ekki standist sé litið til næstu 20 til 50 ára. Ekki fáist gögn sem sýna fram á að hagkvæmara sé að fara með elstu bekki skólans í Reykholt.

Ekki hafi verið unnið eftir upphaflegri verkáætlun samráðshópsins. Tillaga um aldur var send til sveitarstjórnar eftir 4. fund í stað 5. fundar samkvæmt fundaplani. Mjög var þrýst á að sameiginleg tillaga samráðshóps um aldur nemenda við leik- og grunnskólann yrði samþykkt á 4. fundi.

„Eðlilegt hefði verið að samráðsnefndin sendi frá sér fleiri en eina tillögu en hart var þrýst á hópinn að samþykkja aðeins eina tillögu að aldri barna við skólann þrátt fyrir mikil mótmæli við tímasetningu samþykktarinnar þar sem einn fulltrúi í samráðshópnum var fjarverandi,“ segir í greinargerð þremenninganna.

Þá hafi verið farin ferð í Flóaskóla á vegum meirihluta sveitastjórnar ásamt skólastjóra og einum fulltrúa úr fræðslunefnd. Meðlimum samráðshópsins bauðst ekki að fara í þessa ferð né voru þeir formlega látnir vita af henni fyrirfram.

Meirihluti sveitarstjórnar hafi komið með tillögur og lagt fyrir hópinn en Birna, Pétur og Vigdís telja eðlilegra að hópurinn vinni að sínum tillögum ásamt arkitekti og leggi þær undir sveitarstjórn. Þá hafi tillögur hópsins varðandi skólamál miðast við hugsanlegar sameiningar sveitarfélaga. Ekki sé horft á stöðuna eins og hún er í dag.

„Að lokum hefði verið eðlilegra að samráðshópur um sameiningu leik- og grunnskóla hefði hafið störf sín áður en sameiningin var framkvæmd. Að þessu gefnu teljum við tíma okkar betur varið í önnur störf en innan samráðshópsins,“ segir í niðurlagi greinargerðarinnar.