Segja nafnið vísa til erfiðrar upplifunar

Bæjarráð Hveragerðis mælir ekki með því að hátíð sem SASS og Markaðsstofa Suðurlands standa fyrir í vor muni bera nafnið “Hinn árlegi Suðurlandsskjálfti”.

Verkefnið hefur verið kynnt sveitarstjórnum á Suðurlandi að undanförnu og meðal annars á fundi bæjarráðs Hveragerðis.

Bæjarráð Hveragerðis setur fyrirvara við nafnið á hátíðinni og segir það virka mjög neikvætt þar sem það vísi til erfiðrar upplifunar íbúa á svæðinu. Óeðlilegt sé að tengja slíkan atburð við skemmtun.

Málinu var vísað til nánari umfjöllunar í menningar-, íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðis.

Megininntak Hins árlega Suðurlandsskjálfta er matur-saga-menning og markhópurinn er Íslendingar og Sunnlendingar sjálfir.