Segja Kjalveg dragbít í ferðaþjónustunni

Fulltrúar þriggja fyrirtækja í ferðaþjónustu við Kjalveg hafa sent frá sér ákall til stjórnvalda um að gera Kjalveg að boðlegri ökuleið ferðamanna.

Fyrirtækin, sem taka alls á móti að minnsta kosti 75.000 ferðamönnum í ár, vilja draga athygli stjórnvalda, nýkjörins Alþingis og landsmanna allra að hörmungarástandi þessarar vinsælu ökuleiðar ferðafólks þvert yfir hálendi Íslands.

„Ástand Kjalvegar ógnar íslenskri ferðaþjónustu og skaðar ímynd hennar og Íslands. Í bókstaflegum skilningi er það reyndar líka svo að ástandið er afar skaðlegt fólksflutningafyrirtækjum. Þau þurfa ítrekað að þola tjón á stórum og smáum bílum sínum á Kjalvegi, stundum stórfellt tjón,“ segir meðal annars í ákallinu.

Undir það rita Herbert Hauksson, fyrir hönd Fjallamanna ehf við Langjökul, Gunnar Guðjónsson, fyrir hönd Hveravallafélagsins ehf og Páll Gíslason, fyrir hönd Fannborgar ehf í Kerlingarfjöllum.

Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þremenningarnir segja þessa niðurgröfnu ýtuslóð vera barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.

„Við biðjum ekki um malbikaða „hraðbraut“ yfir hálendið og teljum raunar slíkar hugmyndir hvorki æskilegar, raunhæfar né þjóna hagsmunum ferðamennsku og íslensks þjóðarbús. Þarna á einfaldlega að vera góður „ferðamannavegur“, framkvæmd sem er raunhæf og þarf að komast á dagskrá strax til að leysa brýnan vanda,“ segir í ákallinu þar sem hvatt er til þess að Vegagerðinni verði gert kleift að halda áfram þar sem frá var horfið sumarið 2010 þegar vegarkafli að Grjótá, sunnan við Bláfellsháls, var breikkaður og hækkaður. Sú vegagerð hafi verið velheppnuð og til fyrirmyndar

„Kjalvegur er dragbítur í ferðaþjónustunni og samræmist að óbreyttu ekki efnislegu inntaki stefnuyfirlýsingar um „Ísland allt árið“, enda er hann ekki einu sinni almennilega bílfær um hásumarið,“ segir ennfremur í ákallinu.

Fyrri greinOrkuveitan og BioKraft í samstarf um vindorku
Næsta greinNöfn hjónanna sem létust