Segir ofríki stofnana í Reykjavík eyðileggja sveitarstjórnarmál

„Það er búinn að vera augljós meirihluti fyrir því í langan tíma að fá vegstæðinu hér í gegnum Vík breytt en það virðist ekki skipta neinu máli.

Við sáum það í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar sem stuðningsmenn nýs vegar fengu fjóra af fimm í sveitarstjórn. Það virðist hins vegar engu breyta þegar málin koma til afgreiðslu suður í Reykjavík,” segir Þórir N. Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Víkurprjóns í Vík í Mýrdal.

Þórir birti grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu þar sem hann gagnrýnir harðlega hvernig umhverfisstofnun og skipulagsstofnun taka á málum sveitarfélaga sem hann segir að byggist á valdhroka og skilningsleysi á þörfum landsbyggðarinnar.

Í grein sinni segir Þórir: „Það er sífellt að koma betur í ljós að sumar ríkisstofnanir og allir þeir sérfræðingar sem þar starfa eru að verða mesti þrándur í götu framfara á landsbyggðinni.”

Í samtali við Sunnlenska segist hann með þessum orðum sínum vera fyrst og fremst að tala um undirstofnanir umhverfisráðuneytisins.

„Og þó talar þetta fólk alltaf um það á hátíðarstundum að skipulagsmál séu hér heima í héraði,” segir Þórir og bendir á að þetta geti haft afdrifaríkar afleiðingar. Henn segist til dæmis tæpast sjá fyrir sér að fólk verði viljugt til að bjóða sig fram til ábyrgðastarfa í næstu sveitarstjórnarkosningum þegar vilji kjörinna fulltrúa væri fullkomlega hundsaður.

„Fólk nennir bara ekki að taka þátt í sveitarstjórnarmálum búandi við ofríki stofnana í Reykjavík. Þær virðast frekar vilja hlusta á fólk sem lítið þekkir til eða hefur hér stutta viðveru í sumarbústöðum. Staðreyndin er sú að það er brýnt að færa veginn. Þó hér sé ekki um háan fjallveg að ræða þá getur hann verið illfær. Auk þess er orðið óviðunandi að öll þessi umferð sem við búum við í dag fari í gegnum bæinn,” sagði Þórir.

Aðspurður sagðist hann ekki bjartsýnn á að viðunandi lausn fáist í málinu, vegalagningin er í sjálfheldu á meðan nýtt vegstæði komist ekki inn á skipulag. Umhverfisstofnun hefur lagst gegn þessari breytingu en umhverfisráðuneytið á eftir að taka afstöðu í málinu.

Fyrri greinEnginn sótti um auglýsta stöðu
Næsta greinGestrisnir Hvergerðingar