Segir meirihlutann byggja væntingar um skýjaborgir

Í Hamarshöllinni.

Hveragerðisbær hefur ráðið Torfa G. Sigurðsson, verkfræðing hjá Mannvit, og Jakob Líndal arkitekt hjá Alark arkitektum, til að fylgja eftir vinnu hönnunarhóps um endurbyggingu Hamarshallarinnar.

Torfa og Jakob er ætlað að koma að nánari þarfagreiningu og gerð alútboðsgagna í samstarfi við bæjaryfirvöld.

Skýrsla hönnunarhóps nýrrar Hamarshallar var tekin fyrir á fundi bæjarráðs í síðustu viku og gagnrýndi Friðrik Sigurbjörnsson, bæjarráðsfulltrúi D-listans, starf hönnunarhópsins og sagði að frá upphafi hafi verið ljóst að ekki yrði tekið tillit til framkvæmdakostnaðar né hönnunar- og framkvæmdatíma, heldur virðist eingöngu hafa verið horft til óraunhæfra óska og draumsýnar fulltrúa O-lista og Framsóknar.

„Það er óneitanlega sérstakt að hönnunarhópurinn sem skipaður var til að setja saman tillögur varðandi hönnun íþróttamannvirkisins og fyrirkomulag á allri aðstöðu, hafi ekki fengið neinn ramma um stærðargráðu og gæðastig byggingar út frá fjármagnsgetu bæjarfélagsins. Með vönduðum vinnubrögðum og vandaðri stjórnsýslu hefði átt að leggja línurnar um byggingu nýs íþróttamannvirkis, en í stað þess eru byggðar væntingar um skýjaborgir hjá iðkendum, þjálfurum og öðrum bæjarbúum,“ segir Friðrik.

Fulltrúar meirihlutans svöruðu Friðriki og ítrekuðu að byggingin yrði frekar einföld og hagkvæm í byggingu en kostnaður lægi ekki fyrir. Byggingin yrði byggð í áföngum og í fyrsta hluta verði fjölnota gólf ásamt gerfigrasi og verið væri að horfa til þess að tekinn þann áfanga í notkun haustið 2023.

Fyrri greinAnna María innleiðir farsældarlög í skólakerfinu
Næsta greinByko býður öllum frítt í Kia-Votmúlahringinn