Sé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu

Sögufrægt atriði úr Gettu betur 2001 þegar Þórhildur Daðadóttir, Eyjólfur og Páll Sigurðsson glugguðu í Sunnlenska fréttablaðið á meðan keppendur Menntaskólans í Reykjavík kynntu sig. Ljósmynd/Sunnlenska

Eyjólfur Þorkelsson er goðsögn í Gettu betur sögu Fjölbrautaskóla Suðurlands en hann var í liði skólans á árunum 1998 til 2001. Eyjólfur kunni ekki bara réttu svörin heldur hafði hann hárbeittan húmor og kunni að búa til gott sjónvarp, enda er Gettu betur skemmtiþáttur og þarna var Eyjólfur svo sannarlega á heimavelli.

„Við komumst í átta liða úrslit 1998 og 2001 en duttum út í 16-liða úrslitum árið 2000. Það var auðvitað dómaraskandall en árið 1999 fórum við alla leið í undanúrslit og það var mikil stemning það árið. Reyndar á ég mjög erfitt með að skilja Gettu Betur frá menntaskólaárunum í heild. Ég bar gæfu til að vera í skóla áður en stúdentsnámi var troðið niður í þrjú ár og ég fullyrði að allt það sem maður gerði til hliðar við námið kenndi mér og mótaði meira en námsskráin,“ segir Eyjólfur, sem er í dag sérfræðingur í heimilislækningum og var nýkominn af vaktinni á Reyðarfirði þegar við heyrðum í honum. „Ég er búinn að vera búsettur í Svíþjóð og er enn að gera upp við mig hvort ég muni búa áfram þar eða flytja á Egilsstaði.“

Eyjólfur Þorkelsson. Ljósmynd/Aðsend

Leynifundur á Pizza ´67
Sú saga hefur flakkað um ganga FSu að annar skóli hafi seilst eftir kröftum Eyjólfs, en það hlýtur að vera fáheyrt að keppendur í spurningaliðum fari á „leikmannamarkaðinn“ eins og knattspyrnumenn. Eyjólfur glottir út í annað þegar þessi saga er borin undir hann.

„Þetta var vorið 1999, eftir að við duttum út á móti MR í undanúrslitum. Það var búin að vera einhver gremja í Menntaskólanum við Hamrahlíð þennan vetur þar sem nemendafélagið þar taldi að ekki hefði verið rétt staðið að málum þegar dregið var í undanúrslit vorið áður. Dag einn fæ ég símtal og sá kynnti sig sem fráfarandi liðsmaður MH og spurði hvort ekki mætti bjóða mér út að borða. Ég hélt að það væri verið að gera at í mér og sagði engum frá þessu nema Rögnu frænku minni, sem ég bjó hjá á meðan ég var í fjölbraut. En mér til mikillar furðu birtist svo bíll í hlaðinu á tilsettum tíma og ég fór í fylgd fjögurra merkispilta að borða hjá Elvari á Pizza ´67,“ segir Eyjólfur leyndardómsfullur.

„Ég man svosem ekki hvað var rætt á þessum fundi, nema ég man að þeir spurðu mig hvernig ég hefði vitað svarið við spurningu um Pál Björnsson í Selárdal. Og þeir trúðu mér ekki þegar ég sagði sem satt var að ég hefði fyrir rælni lesið um hann aftan á dagatali frá Íslandsbanka, sem var við eldhúsborðið í Hrísholtinu hjá Rögnu og Krilla,“ segir Eyjólfur og hlær.

Veit ekki hvort skólayfirvöld vissu um þessi gylliboð
„Að endingu komust þeir svo að kjarna málsins. Tveir af þremur liðsmönnum þann veturinn voru að útskrifast og þeir vildu spyrja mig hvort ég hefði hugleitt að skipta um skóla. Mér var boðin aðstoð við að finna húsnæði og heitið svigrúmi við mætingaskyldu meðal annars… Ég vissi ekkert hversu mikil alvara bjó þarna að baki, eða hvað Nemendafélag MH eða skólayfirvöld vissu um þessi gylliboð. Ég þakkaði bara pent fyrir pizzuna, ég væri með hlutverk í uppsetningu NFSu á Hárinu og hefði náð kjöri í nemendaráð um haustið sem mig langaði að fylgja eftir. Aðallega fannst mér þetta bara kjánalegt og lítill sómi að. Það hvarflaði aldrei að mér að skipta um skóla og ég sá ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu,“ segir Eyjólfur og málið var ekki rætt frekar.

„Ég rakst af og til á einstaklinga úr sendinefndinni þegar ég var kominn í háskólann. Ég nefndi þetta aldrei að fyrra bragði og þeir ekki heldur. Eitthvað segir mér að þeim hafi þótt ágætt að sem minnst væri um þetta talað.“

Eyjólfur hafði að eigin sögn líka ákveðið svigrúm í FSu, að minnsta kosti sáu margir kennarar í gegnum fingur sér með hversu „andlega nærverandi“ hann væri í tímum. „Nema Ingis þýskukennari, sem kvartaði undan því að hrotur trufluðu kennsluna.“

Sigursveinn Sigurðsson, Herdís Sigurgrímsdóttir og Eyjólfur skipuðu lið FSu árið 1999. Á borðinu er verðlaunagripurinn sem FSu fékk fyrir sigurinn í keppninni árið 1986. Ljósmynd/Örlygur Karlsson

Byrjaðu alltaf á að telja þinn eigin púls
En yfir að máli málanna. Úrslitaviðureign FSu og MR í Gettu betur annað kvöld. Eyjólfur viðurkennir að hann hafi ekki fylgst grannt með Gettu betur síðustu ár en framganga FSu í ár hafi vissulega vakið athygli hans.

„Mér líst ákaflega vel á liðið og stemninguna hjá stuðningsmannasveitinni. Auðvitað kitlar það þessa sterku taug sem maður hefur til gamla skólans síns hvað gengur vel en ekki síður hvað þau koma vel fyrir. Ég ætla að sjálfsögðu að horfa á keppnina á morgun og bæði lið eiga jafnan möguleika á sigri áður en leikar hefjast. Góð ráð til liðsins? Byrjaðu alltaf á að telja þinn eigin púls! En grínlaust, þau eru komin lengra en nokkurt FSu lið í hartnær 40 ár og mega vera ógeðslega stolt af sér. Sama hvernig leikar fara þá eru þau sigurvegarar,“ segir goðsögnin Eyjólfur Þorkelsson að lokum.

TENGDAR FRÉTTIR:
Sveinn Helgason: Komu FSu á kortið
Herdís Sigurgrímsdóttir: „Það var á við góðan Suðurlandsskjálfta“
Brúsi Ólason: „Röngu svörin ásækja mig“
Elín, Ásrún og Heimir: Engin pressa fyrir úrslitakvöldið

Fyrri grein„Góðir tímar framundan“
Næsta greinRagnar leiddi Hamar til sigurs