Scandic International kynnir nýjan samstarfsaðila og nýja hönnun af bát

Sem kunnugt er hefur félagið Scandic International háð langa baráttu í réttarsölum Sameinuðu arabísku furstadæmanna við fyrrverandi viðskiptafélaga þar.

Þeirri baráttu er nú lokið með fullnaðarsigri félagsins á öllum dómsstigum í Dubai og þar með var staðfest að ekkert óeðlilegt hafi verið við umboð það sem félagið veitti sínum lögmanni árið 2010 og ásakanir um annað voru með öllu tilefnislausar.

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgun kynnir það til leiks nýjan samstarfsaðila félagsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það er Dr. Hamad Aldhaheri sem er mjög virtur og traustur viðskiptamaður, eins og segir í tilkynningunni. Hann hefur sl. ár unnið náið með félaginu í nokkrum verkefnum og segja forráðamenn Scandic International að það sé mikill heiður að fá hann til samstarfs. Hann hefur einnig ásamt fleiri heimamönnum í SAF staðið mjög vel við bakið á félaginu í þeim málaferlum sem nú eru að baki.

Í tilkynningunni kynnir Scandic International einnig til sögunnar nýja bátahönnun sem unnið hefur verið að sl. ár. Báturinn, sem nefnist Scandic Shark, er teiknaður af Kristjáni Birni Ómarssyni og byggist á nýrri hugmynd sem gengur út á að nýta orkuna betur en almennt gengur og gerist í hefðbundnari hönnun. Þegar hefur eitt prufueintak verið byggt á þessari nýju hönnun og næsta prufueintak fer senn í framleiðslu í samstarfi við kínverska samstarfsaðila. Bátur þessi er um 10 m langur en gangi verkefni þetta vel upp þá er markmið fyrirtækisins að stærri bátar verði einnig byggðir á þessum sama grunni.

Stjórnarmenn félagsins vilja þakka þann góða stuðning sem þeir hafa fengið í þeirri baráttu sem afstaðin er. “Fjölmargir aðilar, íslensk stjórnvöld, vinir og vandamenn hafa staðið eins og klettar við bakið á okkur í mjög harðri baráttu og þessi góði stuðningur hefur verið ómetanlegur. Kínverskir samstarfsaðilar okkar og vinir fá einnig okkar bestu þakkir fyrir ómetanlegan stuðning og skiling því þeir hafa svo sannarlega sýnt að þeir eru sannir vinir þegar á reynir,” segir í tilkynningunni en undir hana rita stjórnarmennirnir Benedikt G. Guðmundsson, Kristján Björn Ómarsson og Tyrfingur Guðmundsson.

Fyrri greinÞórir heiðraður fyrir leik
Næsta greinHægt að velja um naflahringinn, -strenginn eða -kuskið