Sautján milljón króna samningur við Björgunarfélag Árborgar

Í gær skrifuðu Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar undir þjónustu- og styrktarsamning milli Árborgar og Björgunarfélagsins (BFÁ).

Samningurinn er til þriggja ára og er að andvirði rétt um 17 milljóna á því tímabili en greiðslur skiptast milli ára.

Björgunarfélagið hefur unnið ákveðna þjónustuþætti fyrir sveitarfélagið undanfarin ár og er því framhaldið með þessum samningi. Má þar nefna t.d. snjómokstur af þökum fyrir eldri borgara, setja upp jólaljós á Ölfusárbrú, framkvæmd hátíðarhalda á sjómannadeginum á Stokkseyri ásamt flugeldasýningum á áramótum, þrettándanum og á Sumar á Selfossi.

Sveitarfélagið leggur einnig til rekstrarstyrk til félagsins sem nota á til ungmennastarfs, vinnu við æfingar og björgun á Ölfusá sem og almenns reksturs.