Saurmengun í Ölfusá sprengir skalann

200 þúsund saurkólígerlar mældust í hverjum 100 millilítrum við holræsi í Ölfusá í maí. Það er tvöhundruðfalt meiri saurmengun en umhverfismörk fyrir yfirborðsvatn við holræsi.

Ekki er hægt að byrja á skólphreinsistöð á Selfossi fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári þannig að ástandið verður óbreytt enn um sinn.

RÚV greinir frá þessu.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, sagði í fréttum í vikunni að sveitarfélagið hefði viljað byrja fyrir löngu á framkvæmdum við skólphreinsistöð á Selfossi. Langt er síðan dælur voru keyptar í stöðina. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við deiliskipulag þar sem reisa á stöðina og ákvað bærinn því að fara í umhverfismat. Það verður tilbúið á næsta ári. Ef það verður samþykkt verður í fyrsta lagi hægt að byrja á hreinsistöðinni þá.

Árborg hefur undanfarin ár látið mæla saurmengun í Ölfusá. Mest er mengunin við holræsi bæjarins. Þann 8. maí mældust 200 þúsund saurkólígerlar í 100 millilítrum vatns. Svo mikil mengun má segja að sprengji skalann þegar miðað er við efsta flokk umhverfismarka vegna mengunar yfirborðsvatns vegna útivistar. Lægstu mörkin þar eru 1000 gerlar í 100 millilítrum og telst það ástand vatnsins ófullnægjandi. Sýnið sem tekið var í maí er tvöhundruðfalt hærra en þau mörk.

Frétt RÚV

Fyrri greinMinni eilífðarinnar
Næsta greinMílan fær góðan liðsstyrk